miðvikudagur, 26. desember 2007

Snjokorn falla a allt og alla...






Jóladagur var sá fallegasti sem við höfum upplifað í mörg ár. Nýfallin snjór og alveg logn þangað til það fór að hvessa;)
við tókum nokkrar myndir í garðinum heima, þar sem við bjuggum til 2 snjókarla úr frábærum snjókarlasnjó:D!
Svo komumst við einnig að því að við eigum hund en ekki kött.. hann grípur snjóbolta!!?!

mánudagur, 24. desember 2007

GLEÐILEG JOL!


Elsku vinir og vandamenn við óskum ykkur gleðilegra jóla
Lifið í ljósi og friði

Ykkar,
Olga, Þórarinn og Kristín (+Álfur kisi)

föstudagur, 14. desember 2007

2 Bruðkaup


Við þórarinn fórum í tvö brúðkaup þann 1. des. Já og ekki auðvelt að samræma það...

Fyrst fórum við í kirkjubrúkaup Guggu vinkonu sem var í Lágafellskirkju. Þórarinn fór með Kristínu í pössun í Garðinn til Gullý og Ara og var hann í seinni kantinum á leiðinni til baka. En við náðum í kirkjuna 1 mínútu yfir 3 og sem betur fer var brúðurin ekki alveg komin í sporin inn kirkjugólfið. hjúkk! og við vorum meira að segja ekki síðust! Eftir alveg afskaplega fallega og rómantíska athöfn þurftum við að drífa okkur í næsta kirkjubrúkaup Ingu og Óla sem átti að hefjast klukkan fjögur í hinum enda bæjarins eða í Fríkirkjunni. En þar sem við vorum á aftasta bekk vorum við auðvitað síðust út;) En við náðum þangað um 4, en tímalausa vinkona mín Inga stóð í anddyri kirkjunar með föður sínum og alveg að fara ganga inn kirkjugólfið alveg "on time"?! Við rétt náðum að kyssa brúðina loftkossi áður en okkur var ýtt inn í kirkjuna og vorum við ekki fyrr sest áður en brúðarmarsinn byrjaði að óma og þau feðginin gengu inn kirkjugólfið. Athöfnin var af allt öðrum toga en hjá Guggu og Gunnari en einnig afskaplega falleg. Þeir sem ekki vita þá giftu þau sig í Las Vegas í sumar og bar athöfnin keim af því. Elvis var spilaður af teipi öllum til mikillar gleði og fórum við með þeim í huganum þangað sem þau bundust böndum í sumar. Inga og Óli eru sem sagt tvígift!! ;)

Smá kynning á þessum vinkonum mínum:
Gugga vinkona var að giftast góðum manni Gunnari sem hún kynntist nokkrum mánuðum á eftir að ég kynntist Þórarni! Ég og Gugga kynntumst í gegnum sameiginlega vinkonu okkar Eyrúnu rétt eftir að ég fluttist heim árið 2000 og urðum strax miklar vinkonur. Þar sem við vorum báðar lausar og liðugar, einar af fáum vinkonum, hittumst við ávallt á "pabbahelgunum" Guggu og fórum á kaffihúsastússið! Afskaplega skemmtilegur tími það, en við sáum að þarna myndum við eflaust ekki hitta okkar framtíðarmenn, enda úrvalið heldur dræmt. Eftir 3ja ára þrotlausa leit (hehehe) fann ég þó hann Þórarinn við einn barinn;) og hætti þar með pöbbastússinu og Gugga fór á blændddeit í heimahús vinkonu þar sem hún kynntist honum Gunnari sínum;) Síðan þá höfum við helga okkur mönnunum okkar og fjölskyldu og haft allt of lítið samband. En það stendur til bóta;) kannski maður skelli sér bara í hestamennskuna með þeim!!!??!

Svo er það hún Inga mín, en henni kynntist ég í Berlín 1991. Við vorum nýkomnar út og kynntumst í Íslendingafélaginu. Það var hefðin að nýjir Íslendingar í nýlendunni rottuðu sig saman til að byrja með. Tengslin eru svo sterk hjá þessari elskulegu þjóð.. Við urðum einnig strax mjög góðar vinkonur og bjuggum meira að segja saman í 1 ár;) Inga fór heim til Íslands 1993 þegar hún var búin með námið og hóf störf við Þjóðleikhúsið sem leikhúsförðunarmeistari og vinnur þar enn. Óla sinn kynntist hún í Perlunni þegar hún var að drýgja tekjurnar við það að selja geisladiska fyrir 10 árum og Óli var þar líka og svo leiddi eitt af öðru;) og nú eru þau gift loksins!

Ég átti aðeins mynd af þeim sem ég fann á bloggsíðunni þeirra en ég hef enga af Guggu og Gunnari, en ég þarf að biðja hana um að senda mér eina slíka. Alla vega er ég búin að reyna árangurslaust að googla þau á netinum en án árangurs.

Elsku brúðarhjón bæði, innilega til hamingju með heitin! Lifið í lukku en ekki í krukku!!!

vindurinn Kari

Nú er frost á Fróni,
frýs í æðum blóð,
kveður kuldaljóð
Kári í jötunmóð.
Yfir laxalóni
liggur klakaþil,
hlær við hríðarbyl
hamragil.

(Kristján Jónsson)

við hér í hlíðunum sofum værum svefni á meðan vinir og vandamenn geta ekki komið dúr á auga út af veðrinu. við erum þó svo heppin að vera í meira skjóli en aðrir á höfuðborgarsvæðinu;) lausamunir hafa fokið út í veður og vind hjá vinum og vandamönnum sem búa á berskjaldaðri svæði en við. meira að segja hafa rúður brotnað hjá sumum. já, og maður spyr sig eftir að svona veður hefur endurtekið sig þrisvar í sömu vikunni, hver orsökin sé?!? Látum vísindamenn koma með svörin...

Birna! ég held að ég fari mjög fljótlega að koma til ykkar til Kaliforníu í sólina! Og Loftur í góða veðrið til ykkar í Barcelona!

föstudagur, 7. desember 2007

afmælisbörn vikunnar




elsku maría frænka! innilegar hamingjuóskir með daginn í dag 7. desember;) og elsku embla þöll! innilegar hamingjuóskir með daginn þann 4. desember:)

mánudagur, 12. nóvember 2007

svo mikið að gera..


1 fyrirlestur á Kjarvalsstöðum, 1 samkeppni skilað (Krikaskóli, Þ), 2 jarðafari, 1 bröns, 1 amma og 1 afi frá Akureyri í heimsókn, 1 afmæli, 2 í ælu- og niðurgangspest (O +K), vinna, sofa borða etc.... svona hefur síðasta vika verið hjá okkur. Sem skýrir kannski af hverju við höfum verið svona löt að blogga

En hér erum við aftur! og viljum byrja á því að óska Svavari Axel frænda til hamingju með 5 ára afmælið þann 10. nóv!! Fleiri hafa átt afmæli þennan mánuðinn og óskum við þeim líka til hamingju! Hera og Sigríður María 1. nóv og Halldór Heiðar þann 11.! Til hamingju!

Lif og dauði

Það er svo stutt á milli lífs og dauða.. maður gerir sér ekki grein fyrir því fyrr en maður hefur lent í því sjálfur. Lífið er svo hverfult. Það á eigi síður um þá sem deyja ungir en þá sem deyja eldri. Enginn er í rauninni undir það búinn..

Nú í síðustu viku fór ég í eina jarðarför, en það var jarðaför uppeldismóður Elmars mágs míns. Þar sem ég hef verið með henni í mörgum veislum hjá Möggu systur minni og Elmari og kynnst henni ágætlega þar. Fyrir tæpu ári veiktist hún af krabba sem dróg hana hratt til dauða. Ég hef sjaldan kynnst jafn óeigingjarnari konu. Hún var alltaf jákvæð og bar af sér mikinn þokka. Nú er þessi bjarta kona farin. Það er ekki liðið ár síðan að móðir Elmars dó, en hún var einnig búin að vera mikið veik. Sú kona var eigi síður glæsileg. Elsku Elmar minn ég samhryggist ykkur innilega. Þær lifa í minningunum þínum.

Fyrir rúmri viku síðan dó amma gamallar vinkonu minnar, hennar Mæju. Þessi kona var sú unglegasta á hennar aldri sem ég hef komist í kynni við. Hún var nú reyndar ekki heldur svo gömul aðeins 39! Eins og hún vildi meina sjálf;) Annars leit hún alls ekki út fyrir að vera orðin rúmlega 80. Hún fór einnig snöggt, fékk slæma heilablæðingu og dó 3 vikum seinna. Sorglegt. Elsku Mæja mín ég samhryggist ykkur innilega. Ég hef alltaf öfundað þig af að eiga svona "unga" og glæsilega ömmu. Hún verður það greinilega alltaf í minningunni. Ég sá eftir því að hafa ekki farið í jarðaförina, en ég átti með ykkur góða stund í staðinn um kvöldið sama dag. Blessuð sé minning hennar.

Við munum alltaf vera að kveðja einhverja sem fara á undan manni sjálfum út lífið. Mér finnst dauðinn vera allt of mikið feimnismál hér heima. Syrgjendur þurfa að geta talað um ástvini sína sem þeir missa. Þegar ég missti bróðir minn fyrir núna 8 og hálfu ári, fannst mér eins og margir forðuðust að tala um það / sorgina við mig. En ekki skrýtið hjá þeim sem ekki vita hvað það er og hafa kannski aldrei þurft að hugsa um slíkt. Umræðuefnið er tabú í samfélaginu. Enginn er undir það búinn að missa einhvern. Ef fólk á engan að til að deila sorginni með eru til samtök eins og Ný Dögun - samtök um sorg og sorgarviðbrögð þar sem oft eru haldnir fundir fyrir syrgjendur. Nú eru jólin að ganga í garð og oft er það erfiðasti tími syrgjenda. Ég hafði ekki tök á að fara á fundi hjá þeim á sínum tíma en það hefði verið kærkomið að hafa slík samtök í Berlín þar sem ég hafði ekki fjölskyldu til að deila þessu með. Að tala við presta getur einnig verið eins gott og að fara til sálfræðings.. þeir eru þjálfaðir í þessu og get ég mælt með Sigurði Pálssyni.

Elsku vinir og fjölsk góða minningin um hina látnu er dýrmætt vegarnesti og hún lifir með manni að eilífu.
**** o

þriðjudagur, 30. október 2007

Íslensku Byggingarlistaverðlaunin





Þann 20. þessa mánaðar voru fyrstu Íslensku Byggingarlistaverðlaunin veitt við hátíðlega athöfn á Kjarvalsstöðum. Lækningalindin sem var í hópi 10 annarra tilnefndra verka hlaut hnossið! Já! við erum stoltar af því stöllurnar sem unnum eins og geðskjúklingar þessi 2 ár sem það tók í hönnun fram að opnun hússins! Þrátt fyrir að vera hætt hjá VA arkitektum var mér veittur sá heiður að vera með þeim Sigríði og Ingunni við verðlaunaafhendinguna.júhú!!

Næsta laugardag eða þann 3. nóv. verður gegnumgangur og verða tilnefnd verk kynnt af höfundum og almenn umræða haldin um verkin, þannig að nú er bara að mæta og skoða! Sýning á verkunum er í austur enda Kjarvalsstaða í ganginum. Sýningin stendur yfir í einhverjar vikur og er opið frá 11 til 17 alla daga til 11. nóv held ég..

lov jú gæs!

(linkur um sýninguna á Kjarval: http://www.listasafnreykjavikur.is/desktopdefault.aspx/tabid-2185/3362_read-8519/ )

sunnudagur, 28. október 2007

Kristin og Hlaupabolan


Kristín er búin að vera með hlaupabóluna sem er nú í rénum... orðin frekar leið á inniverunni og ætlar sko að fara í leikskólann á morgun! :) Hinn sjúklingurinn (Þ) er allur að koma til, en hann er búin að vera með lungna"bóluna";( og ekkert bítur á hina stálslegnu Olgu;) (knock knock knock!)

Kristin og Lina


bloggið byrjað hja fjölskylduni að uthlið 9 :D

VIÐ VILJUM ENDILEGA GERA ÞAÐ KUNNGJÖRT VINUM OG VANDAMÖNNUM AÐ VIÐ ERUM BYRJUÐ AÐ BLOGGA OG BYRJAR ÞAÐ MEÐ HELSINKIFERÐINNI OKKAR SEM VAR FARIN 4. -8. ÞESSA MÁNAÐAR. FLEIRA BÍÐUR TIL AÐ BLOGGA UM OG VERIÐIÐ ENDILEGA DUGLEG AÐ KÍKJA ;)

BESTU KVEÐJUR,
OLGA, ÞÓRARINN OG KRISTÍN (OG ÁLFUR)

buitiful men in helsinki...

mr anese og herr a. hardarson; mr erlinger, mr olo; mr city; mr jonase; mr j sigurdsson and mr olo





áfrh2 myndablogg fra helsinki

vinnustofa alvar altos, Þórarinn og kona altos; menn á veiðum, voffi í 2vídd




áfrh myndablogg fra Helsinki

mollið um borð á Silvia-line; steinakirkjan í Helsinki; séra Þórarinn; trúarjátning Borghildar; við höfnina í Helsinki




myndablogg fra helsinki

arabia-alvar alto; arkitektúrgláp; drottningarvink Jóns; finnskt byko; heimili alvar altos





HELSINKI






Við hjónaleysin skelltum okkur til Helsinki með samstarfsfélögum Þórarins og mökum þeirra á dögunum.
K var nú búin að fá að vita það að nú væru mamma og pabbi að fara með stóru flugvélinni og kæmu eftir svo og svo marga daga. Var orðin nokkuð þreytt á þessum endurtekningum og snéri sér á hina hliðina og sofnaði. Amma Kolla vaknaði við hlið hennar daginn eftir og fór með hana í leikskólann. Litla greyið yrði í góðu yfirlæti hjá ömmu sinni, Möggu frænku og Telmu (Róbert og Elmari líka) sem búa við hliðina á ömmu Kollu og afa Bjössa.
Fyrst var flogið til Stokkhólms og rölt um gamla miðbæinn sem er alveg einstaklega kósí. Svo var farið í risa ferju sem er eins og 12 hæða lúxus hótel á floti. Alveg ótrúlega súrealískur heimur sem ég hef aldrei kynnst áður. Við fengum herbergi/ káetu með útsýni til (mest norðurs) yfir allt sem á vegi okkar varð í gegnum sænska skerjagarðinn út í eystrarsaltið og til HElsinki. Um borð voru nokkrir veitingastaðir, nokkur kaffihús, búðir af öllum gerðum, kasínó, diskótek og barir og meira að segja fríhöfn! Við áttum allavega mjög góðar og skemmtilegar stundir um borð og sofnuðum værum svefni einhvern tímann undir morgun og vöknuðum við það að sigla inn í höfn Helsinki frekar lúin eftir gleði næturinnar. En sem betur fer var sól í HElsinki og sólgleraugun sett upp með góðri samvisku;) Þegar komið var á land var stokkið upp í rútu og við keyrð á hótelið, sem staðsett er í miðbænum og í göngufjarlægð frá öllu skemmtilegu. Byrjað var á því að finna sér kaffihús til að borða á og fá sér tvöfaldan expressu tili hressingar. Á með Þórarinn og félagar úr Batteríinu fóru mishressir í heimboð arkitektastofu sem ég man ekki hvað heitir, að hlíða á fyrirlestur um verk þeirra, var ég og Borghildur í sjopping-leiðangri með pásum á kaffihúsum bæjarins. Borghildur er samstarfskona Þ og fyrrv samstarfskona mín frá því að ég vann á PK hönnun 2000-2002,, alveg svakalega hress og skemmtileg stelpa. Okkur fannst það eiginlega mikilvægara að finna góðar fatalufsur á börnin okkar og sjálfan okkur en að hýrast í þynnkunni að hlusta á einhverja arkitekta ;) En prógrammið var svo stíft að þetta var í raun eini tíminn til að verlsa. Um kvöldið var síðan farið á Michelin staðinn "Demo" sem er lítill en snotur staður ekki langt frá hótelinu. Þar var smakkað á hinum ýmsu smáréttum og vínum fyrir 25 þ kall á parið! úff, frekar dýrt það, en þjónninn var einstaklega skemmtilegur þannig að enginn var í fýlu þrátt fyrir háan reikning. Nema hvað flest karldýrin voru enn þá svöng og fengu sér samlokur á hótelbarnum á eftir:)
Daginn eftir var ræs og sjæn um kl. 8.00 (kl. 5.00 á ísl tíma!) og hálfsofandi drösluð upp í rútu (með sólgleraugun á nefi, þrátt fyrir sólarleysið) og keyrt um borgina undir leiðsögn "gamaldags" arkitekts. Gamaldags meina ég því að hún var með frekar aðrar áherslur á byggingarlist en við flest hefðum haft áhuga á, en sem betur fer fengum við að sjá mikið eftir meistarann Alvar Alto og sáum meðal annars heimili hans og vinnustofu, sem eru einstaklega falleg verkefni. Eftir 8 tíma rútuferð sem allir voru búnir að fá nóg af var farið upp á hótel til að lúra aðeins áður en haldið var á annan Michelin staðinn í þetta sinn með öllu liðinu og á kostnað Batterísins:) Það var líka betur skammtað á þessum stað og allir fóru saddir heim með skegg á kinn, efrivör eða höku (sjá myndir) þetta kvöldið. Daginn eftir fóru þeir sem gátu í gönguleiðsögn með sama arkitektinum um miðbæinn en þeir sem latir og of þreyttir voru lúruðu aðeins lengur og mættu hinum í brönsinum. Sá dagur var síðan frjáls eftir hádegi og vorum við í samfloti með Hildi og Erlingi þennan daginn, en þau voru ein af þeim sem lúruðu lengur. Við skoðuðum höfnina og fórum inn í skemmtilegt hafnarmarkaðshús sem Guja vinkona var búin að benda mér á. Þar keypti ég mér ostinn sem við fengu bita af á "Demo" staðnum og komumst við að því að hann kostaði aðeins 20 evrur kílóið!!
Við gátum ekki staldrað lengi þarna við því að Þórarinn og Erlingur voru alveg að fara gubba af allri matarlyktinni þarna inni! Þaðan röltum við í gegnum bæinn að "Kiasma" safninu eftir arkitektinn Steven Holl og skoðuðum hvern krók og kima í ca 2 til 3 klt:) Einnig voru mjög skemmtilegar sýningar sérstaklega minnistæð barnasýning sem ég verð endilega að berjast fyrir að fá hingað til landsins. Eftir það fórum við að skoða kirkju "Temppeliaukio" sem er sérstök að því leyti að hún er byggð inn í berg. Byggð á 7. áratug síðustu aldar af arkitektunum Timo and Tuomo Suomalainen. Einstaklega falleg kirkja og ein í hópi okkar (Borghildur) fékk trúarupplifun og ætlaði að skrá sig í þjóðarkirkjuna um leið og hún kæmi heim! Ég fékk hins vegar trúarupplifun í listasafninu Kiasma eftir Steven Holl, en af öðrum toga! ;)
Um kvöldið fórum við í rólegan kvöldverð á ítölskum stað með þeim hjónum Borghildi og Anes. En við erum einmitt boðin í löns til þeirra næstu helgi;) Skemmtilegir og hressir "krakkar" sem eiga stelpu á sama ári og Kristín.
Jæja best að fara hætta þessu práli, er að verða eins og ítarleg dagbók! En heimferðin gekk vel og sóttum við Kristínu til Möggu systur. Hún ætlaði nú ekki að taka okkur í sátt en kom loksins í fangið okkar rúmum hálftíma eftir að við komum í hús! Lét okkur virkilega finna fyrir samviskubitinu, enda 5 dagar sem við vorum í burtu!

miðvikudagur, 19. september 2007