




Við hjónaleysin skelltum okkur til Helsinki með samstarfsfélögum Þórarins og mökum þeirra á dögunum.
K var nú búin að fá að vita það að nú væru mamma og pabbi að fara með stóru flugvélinni og kæmu eftir svo og svo marga daga. Var orðin nokkuð þreytt á þessum endurtekningum og snéri sér á hina hliðina og sofnaði. Amma Kolla vaknaði við hlið hennar daginn eftir og fór með hana í leikskólann. Litla greyið yrði í góðu yfirlæti hjá ömmu sinni, Möggu frænku og Telmu (Róbert og Elmari líka) sem búa við hliðina á ömmu Kollu og afa Bjössa.
Fyrst var flogið til Stokkhólms og rölt um gamla miðbæinn sem er alveg einstaklega kósí. Svo var farið í risa ferju sem er eins og 12 hæða lúxus hótel á floti. Alveg ótrúlega súrealískur heimur sem ég hef aldrei kynnst áður. Við fengum herbergi/ káetu með útsýni til (mest norðurs) yfir allt sem á vegi okkar varð í gegnum sænska skerjagarðinn út í eystrarsaltið og til HElsinki. Um borð voru nokkrir veitingastaðir, nokkur kaffihús, búðir af öllum gerðum, kasínó, diskótek og barir og meira að segja fríhöfn! Við áttum allavega mjög góðar og skemmtilegar stundir um borð og sofnuðum værum svefni einhvern tímann undir morgun og vöknuðum við það að sigla inn í höfn Helsinki frekar lúin eftir gleði næturinnar. En sem betur fer var sól í HElsinki og sólgleraugun sett upp með góðri samvisku;) Þegar komið var á land var stokkið upp í rútu og við keyrð á hótelið, sem staðsett er í miðbænum og í göngufjarlægð frá öllu skemmtilegu. Byrjað var á því að finna sér kaffihús til að borða á og fá sér tvöfaldan expressu tili hressingar. Á með Þórarinn og félagar úr Batteríinu fóru mishressir í heimboð arkitektastofu sem ég man ekki hvað heitir, að hlíða á fyrirlestur um verk þeirra, var ég og Borghildur í sjopping-leiðangri með pásum á kaffihúsum bæjarins. Borghildur er samstarfskona Þ og fyrrv samstarfskona mín frá því að ég vann á PK hönnun 2000-2002,, alveg svakalega hress og skemmtileg stelpa. Okkur fannst það eiginlega mikilvægara að finna góðar fatalufsur á börnin okkar og sjálfan okkur en að hýrast í þynnkunni að hlusta á einhverja arkitekta ;) En prógrammið var svo stíft að þetta var í raun eini tíminn til að verlsa. Um kvöldið var síðan farið á Michelin staðinn "Demo" sem er lítill en snotur staður ekki langt frá hótelinu. Þar var smakkað á hinum ýmsu smáréttum og vínum fyrir 25 þ kall á parið! úff, frekar dýrt það, en þjónninn var einstaklega skemmtilegur þannig að enginn var í fýlu þrátt fyrir háan reikning. Nema hvað flest karldýrin voru enn þá svöng og fengu sér samlokur á hótelbarnum á eftir:)
Daginn eftir var ræs og sjæn um kl. 8.00 (kl. 5.00 á ísl tíma!) og hálfsofandi drösluð upp í rútu (með sólgleraugun á nefi, þrátt fyrir sólarleysið) og keyrt um borgina undir leiðsögn "gamaldags" arkitekts. Gamaldags meina ég því að hún var með frekar aðrar áherslur á byggingarlist en við flest hefðum haft áhuga á, en sem betur fer fengum við að sjá mikið eftir meistarann Alvar Alto og sáum meðal annars heimili hans og vinnustofu, sem eru einstaklega falleg verkefni. Eftir 8 tíma rútuferð sem allir voru búnir að fá nóg af var farið upp á hótel til að lúra aðeins áður en haldið var á annan Michelin staðinn í þetta sinn með öllu liðinu og á kostnað Batterísins:) Það var líka betur skammtað á þessum stað og allir fóru saddir heim með skegg á kinn, efrivör eða höku (sjá myndir) þetta kvöldið. Daginn eftir fóru þeir sem gátu í gönguleiðsögn með sama arkitektinum um miðbæinn en þeir sem latir og of þreyttir voru lúruðu aðeins lengur og mættu hinum í brönsinum. Sá dagur var síðan frjáls eftir hádegi og vorum við í samfloti með Hildi og Erlingi þennan daginn, en þau voru ein af þeim sem lúruðu lengur. Við skoðuðum höfnina og fórum inn í skemmtilegt hafnarmarkaðshús sem Guja vinkona var búin að benda mér á. Þar keypti ég mér ostinn sem við fengu bita af á "Demo" staðnum og komumst við að því að hann kostaði aðeins 20 evrur kílóið!!
Við gátum ekki staldrað lengi þarna við því að Þórarinn og Erlingur voru alveg að fara gubba af allri matarlyktinni þarna inni! Þaðan röltum við í gegnum bæinn að "Kiasma" safninu eftir arkitektinn Steven Holl og skoðuðum hvern krók og kima í ca 2 til 3 klt:) Einnig voru mjög skemmtilegar sýningar sérstaklega minnistæð barnasýning sem ég verð endilega að berjast fyrir að fá hingað til landsins. Eftir það fórum við að skoða kirkju "Temppeliaukio" sem er sérstök að því leyti að hún er byggð inn í berg. Byggð á 7. áratug síðustu aldar af arkitektunum Timo and Tuomo Suomalainen. Einstaklega falleg kirkja og ein í hópi okkar (Borghildur) fékk trúarupplifun og ætlaði að skrá sig í þjóðarkirkjuna um leið og hún kæmi heim! Ég fékk hins vegar trúarupplifun í listasafninu Kiasma eftir Steven Holl, en af öðrum toga! ;)
Um kvöldið fórum við í rólegan kvöldverð á ítölskum stað með þeim hjónum Borghildi og Anes. En við erum einmitt boðin í löns til þeirra næstu helgi;) Skemmtilegir og hressir "krakkar" sem eiga stelpu á sama ári og Kristín.
Jæja best að fara hætta þessu práli, er að verða eins og ítarleg dagbók! En heimferðin gekk vel og sóttum við Kristínu til Möggu systur. Hún ætlaði nú ekki að taka okkur í sátt en kom loksins í fangið okkar rúmum hálftíma eftir að við komum í hús! Lét okkur virkilega finna fyrir samviskubitinu, enda 5 dagar sem við vorum í burtu!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli