föstudagur, 18. júlí 2008

DAGBÓK KRÍTAR..fyrstu 6 dagarnir


DAGBÓK KRÍTAR...
9. júlí – DAGUR 1


Eftir að hafa pakkað, þrifið og skilað inn staðgreiðsluskattinn og klukkan orðin 3.45 var farið í rúmið.. Þórarinn fór inn um 2 og Kristín um 10.30 og sváfu værum svefni.. sem senn myndi verða rofinn um 4.45.. fór ég inn að sofa.. sofnaði en var ekki fyrr búin að festa svefn þegar vekjaraklukkan byrjaði að hringja sinn ertandi söng um 4.40... snús... en annað snús var ekki í boði. Enda komið að því... fyrstu sólarlandaferðinni okkar þriggja saman.. mæting á Leifsstöð um 6.30! Við áttum að fara í loftið um 8.00... vorum frekar svefndrukkin eða vansvefta.. gerðum okkur ekki grein fyrir því fyrir spenningi. Kristín var spenntust! Varla neinn á ferli nema við og aðrir sem voru á leiðinni eitthvert á vit ævintýra á Reykjanesbraut.. Sáum þó tvær hræður á leið úr vinnu eða í vinnu í Hafnafirði..
Þegar komið var á völlinn beið okkur alls ekki löng röð í tékk-inn.. þetta skotgekk. Þar hittum við Tinnu frænku okkar kasólétta sem var á leið með sömu vél til Krítar með kærastanum og öðru vinapari. Þau ætluðu að vera í viku og gista á hóteli sem heitir Hellios eftir goðinu sem..... Við hins vegar áttum að gista á Cretan Dream Royal með sundlaug og hálfu fæði og ekki nema 50 m frá ströndinni;)
Eftir um 5 klt flug lentum við á flugvellinum í borginni Chania sem var ekki nema í 30 mínútna akstri frá hótelinu okkar.. Við vorum búin að búa okkur undir hita en ekki alveg svona miklum hita sem var eins og að ganga inn í bakaraofn! Úff ... hugsaði maður.. á maður eftir að geta þolað þetta í heilar 2 vikur!? Sem betur fer var rútan með loftkælingu og við eins og í einhverjum draumi og dofa.. nýkomin úr kaldtempruðu loftslaginu á Íslandi í hitabylgju í Miðjarðarhafi.. svitinn perlaði af ennum okkar og ég hugsaði til Birnu systur og Magga litla sem eru orðin von þessu!! Hvernig er það hægt?! Eftir að rútan hafði stoppað tvisvar á leiðinni til að hleypa út sólarþyrstum Íslendingum á sín hótel komum við að okkar sem birtist eins og einhver höll í hitamistrinu.. og bara við þrjú fórum út þar.. Frábært enginn Íslendingur hér!!  Komin til Krítar á lúxus túristahótel og enginn landi á staðnum... Engir fordómar auðvitað!
Á móti okkur tók vinaleg kona sem tók passana okkar og sagði okkur að fara fyrst með lyftunni upp tvær hæðir ganga síðan ganginn á enda niður nokkrar tröppur og síðan upp nokkrar og í gegnum sundlaugargarðinn og upp tröppur og aðrar tröppur þangað til við sæjum íbúðarnúmerið okkar 423... þetta var ekki auðvelt, enda með kerru, töskur og barn.. Við vorum orðin löðrandi af svita þegar við loksins fundum íbúðina okkar.. Gengið frá fötum og dóti, farið í sturtu, allir! Svo út á veitingastað hótelsins sem er við sundlaugargarðinn.. borðað, borðað á sig gat.. nema Kristín sem var í hitasjokki og hafði enga list, þurfti líka að kúka.. öll þarmastarfsemi í sjokki... Var líka pínu stúrin og þreytt, elsku litla stelpan mín.
Eftir smá streð var farið aftur upp í íbúð og svefninn sótti að..., við lásum Stúf og sofnuðum öll þrjú.. svo vaknaði ég, auðvitað.. ekki hægt að sofa þegar maður var komin í frí! Komdu Þórarinn! útt á verönd og einn kaldur fyrir svefninn! reyndum að halda uppi einhverjum samræðum en málbeinin dofin og hausinn þreyttur.. Eigum við ekki að fara að sofa? Jú, vöknum í fyrramálið og fáum okkur gott að borða á hlaðborðinu.. já.. ok. Góða nótt.. Elska þig.. elska þig líka...


10. júlí – DAGUR 2

Það var erfitt að vakna fyrsta morguninn... augun sokkin af þreytu og líkaminn vildi sofa áfram... en morgunmaturinn beið okkar... hlaðborð af allskonar góðgæti. Drifið sig í sturtu..andlitið á og svo út!
Það var nú meiri veislan... allt frá kornfleksi upp í ommulettur.. mmmmh. Við borðuðum á okkur gat en Kristín vildi helst borða melónur... litla lyst, elsku dúllan okkar.
Þá var bara að skella sér í sundfötin og fara að baka sig! Við fundum tvo bekki við laugina sem voru í sólinni, en það virðist vera lenskan hér að vakna snemma, fara með handklæðin á góðan stað áður en maður er almennilega vaknaður og búin að borða morgunmat! Þetta á ekki bara við þjóðverjana greinilega;) Á meðan Kristín og Þórarinn svömluðu í lauginni lét ég fara vel um mig á sólbekknum... þrátt fyrir að hafa tekið með mér bók þá voru augun of þreytt til að geta lesið.. sólgleraugun sett upp og svo ýsur dregnar... hrrrrr... mikið var nú gott að vera komin í frí.. enginn sími og enginn meil bara friður..
Þegar líða tók á hádegið ákváðum við að fara í litlu verlsunina á hótelinu... þurftum að kaupa okkur eitthvað að drekka og borða í hádegismatinn. Fundum jógúrt, ólívur, ost, salami og hrökkbrauð... fínt megrunarfæði fyrir kelluna... hehehe!
Eftir matinn fórum við upp í rúm og Kristín horfði á Bóbó- bangsa á tölvunni.. stundu síðar vorum við öll sofnuð! Og sváfum til 5! Ofsalega var það gott! Þessi eftirmiðdagshvíld Grikkja og annarra Miðjarðarhafsbúa á vel við okkur!
Eigum við ekki að fara á ströndina?! Júúú, heyrðist í minni Sólarvörnin smurð á og svo í sundgallan og sandalana og rölt yfir götuna og niður á strönd, þar sem öldurnar sungu og heitur sandurinn lék um fætur okkar.. fundum tvo bekki með sólhlíf og Kristín byrjaði strax að týna skófluna og kökuformin upp úr fötunni nýju.. nú átti sko að fara að baka sandkökur fyrir mömmu og pabba;) Þvílík sæla... bara afslöppun.. sól, sumar og sandalar! Og einn kaldur!
Þegar að skyggja tók, tókum við saman föggur okkar og röltum upp á hótel... sturta og sparikjólar.. út að borða! Á fína hótelveitingastaðnum okkar með vingjarnlegu þjónunum og kokknum.. Byrjað á salatinu gríska og svo innbakað lamb í aðalrétt.. alls ekkert eins og kvöldið áður... þetta er greinilega hágæða matstaður! Frábært hráefni og við borðuðum á okkur gat!
Upp í íbúð á eftir.. Kristín í háttinn södd og sæl.. út á svalir með flotta útsýninu okkar og hvítvín og bjór, pistasíur og flögur... er hægt að hafa það betra?! ... Góða nótt...


11. júlí – DAGUR 3

dagurinn í dag var ekki mikið öðru vísi hjá okkur en í gær... nema það að það voru greinilega komnir fleiri “þjóðverjar” og allir sólbekkirnir voru uppteknir þegar við vorum búin að borða morgunverðinn og komin í sólbaðsgallan og ætluðum að svamla í lauginni..... við hugsuðum okkur tvisvar um hvort við ættum ekki bara að setja handklæðin okkar á litla grasflöt og planta okkur þar... en af hverju ekki að fara bara á ströndina i sandkassaleik ... jú afhverju ekki það!? Kristínu fannst það ekki slæm hugmynd, síður en svo;) vörn 50 á Kristínu og 15 á mömmu og pabba! Þannig að þá fórum við á ströndina! Það var einmitt það... og mamma brann á maganum! Pabbi var skynsamur og var í skugganum allan tímann enda rauður frá því í gær Eftir að hafa búið til alls konar sandmat handa mömmu og pabba fórum við ´heim´ að borða og horfðum á Bamba.. svo að lúlla þar til klukkan varð 6 að kvöldi! Út í sundlaug og svo í sturtu og síðan út að borða... borða á sig gat .. upp að lesa og svefninn.... Fullorðna fólkið síðan út á svalir að raða bílum í bílastæðið fyrir framan Bambo Beachbar... eftir nokkra bjóra.. inn að lúlla.... góða nótt!


12. júlí – DAGUR 4

Við nenntum ekki að vakna fyrr til að ná sólbekkjum, þannig að það var ákveðið að fara í bæjarferð eftir morgunverðinn... Við vorum komin upp í ´strætó´ 10 mínútur fyrir 11.. sem var þó eins og einhver langferðarrúta til Akureyrar.. engin sæti og þurftum við að halda okkur fast í næstu sæti á þröngum gangveginum og vonuðum bara að bílstjórinn myndi ekki taka feilspor! Endastöðin í miðborg/ bæ Chania... díselfnykur og mannmergð.. Kristín reyrð í kerruna og lagt af stað í óvissuferð um bæinn.. gengum og gengum inn þröngstræti og fundum slóða upp á gamalt virki þar sem við gátum horft yfir gamla bæinn og út á hafið.. hoppað yfir maurahraðbrautir og föt utangarðsfólks sem greinilega hafðist þar við á næturnar... raunarmædd gömul kona sat þar og þurrkaði tárin... við þóttumst ekki sjá hana og gengum fram hjá ..í hring....drógum upp nýkeypta videocameruna og tókum nokkur skot ásamt því að snappa nokkrum skotum á hina flottu myndavél, sem einungis fáir hafa efni á.... gleymdum eymdinni sem sumir búa við og héldum áfram leið okkar..
Eftir nokkurt búðarráp og leit eftir góðu kaffi ásamt espressovél sem gekk ekki nógu vel...(þó náði Þ að kaupa sér flottar stuttbuxur og bol í Diesel:) lentum við loksins í gömlu höfninni þar sem hestar og fólk spókuðu sig í sólskininu.. fundum fínan veitingastað og fengum okkur grískt salat og bjór.. og orangedjús..í skugga..
Eftir fínan mat og rakí sem var skennkað í glösin okkar eftir matinn með ábót lögðum við af stað í átt að vitanum við hafnar mynnið sem þó var lengri gangur en sýndist.. yfir frekar illa yfirferðar hellulagðar gangstéttirnar með kerru komumst við þó hálfa leið þar sem Kristínu tókst að festa svefn á leiðinni enda frekar heitt.. Annað hvort okkar varð þó að ná leiðarenda.. og varð ég fyrir valinu Báðar myndavélar teknar með ásamt góðu ´föruneyti´og lagt af stað frá veitngastað út á miðjum brimgarðinum..þar sat Þórarinn ásamt sofandi dóttur okkar í kerrunni og veifaði mér í kveðjuskyni... ef ég yrði ekki komin innan hálftíma... sjáumst við á morgun Eftir að haf kælt tærnar í sjónum var lagt af stað eftir þröngum stígnum að vitanum... sjávarniður og á bak við háan brimgarðinn heyrðist hávært brimið.. heitt.. sveitt.. sólarvörn 50 virkaði eins og þykk húð og gerði það að verkum að maður svitnaði meira en venjulega.. komið að vitanum.. hamingjusamt par hjúfraði sig að hvort öðru og naut ´kyrrðarinnar´.. ég hélt að ég kæmist efri leiðina tilbaka en þurfti að snúa við aftur.. parið var búið að færa sig í skuggann og ég hélt áfram tilbaka til minna ástkærustu.. þau voru þar... Kristín enn sofandi í kerrunni og Þórarinn var búinn að gerast vinkfélagi rokkarans á ´prammanum´sem sigldi með fólk fram og tilbaka frá hafnarbakkanum.. við ákváðum að fá far með honum tilbaka Það var enþá síesta og rólegt á götum borgarinnar þar sem við þræddum hin ýmsu hverfi í áttina að umferðamiðstöð bæjarinns þegar þangað var komið upphófst mikil leyt að strætókorti enda allar upplýsingar á grísku ! en ekkert kort!  ......en viti menn í hátalaranum gall: next - bus nr 126 to Stalos, Ag,marina, Plantanias,Gerani,Maleme.... og við vissum að við yrðum komin í kalda sundlaugina á hótelinu innan skamms. K og Þ svömluðu svo í lauginni fram að kvöldmat á meðan O spókaði sig á bakkanum. Eftir matinn og eftirmatinn fékk K svo aftur eftirmat! Þe. Ís á barnum á meðan foreldranir fengu sér rauðvínsglas. K fékk mikinn áhuga á Billjard spili og fékkst ekki í háttinn fyrr en dömunar á næsta borði voru búnar að koma öllum kúlunum niður! K hvatti þær ákaft í hvert skifti sem þær hittu kúlu  Góða nótt..


13. júlí – DAGUR 5

Þ vaknaði um 7.30 og fór niður að sundlaug með handklæði og viti menn það voru lausir þrír bekkir !! allt annað frátekið með handklæðum og dóti. Hvenær fer þetta fólk eiginlega á fætur hérna? Eða leggur það handklæðin sín út á kvöldin?Hmm!
(um kl 11 að kvöldi sama dag)
Sit hér á svölunum okkar hlusta á sjávarniðinn og rifja upp daginn... Já, Þórarinn vaknaði snemma, enda sofnaði hann með Kristínu um kl. 11 og því búin að sofa nægju sína.. enda orðinn eldri og þarf ekki að sofa mikið ;) Við mægðurnar hins vegar sváfum þangað til klukkan vakti okkur... okkur finnst gott að sofa, lengi.. Skrýtið að vera í fríi og þurfa að vakna?! En girnilegur morgunverðurinn dregur okkur fram úr.. enda lokað eftir 10.. já, tómt púl að vera í fríi, hehe.. Þar sem við vorum með frátekna bekki, þökk sé Þórarni, tókum við okkur tíma að smyrja sólarvörnina á okkur og setja nauðsynjar í poka.. áburð, vatn, myndavél, og ávexti.. sólgleraugun sett á nefið og í sólbaðsgallan.. Ég í þetta sinn í hlírabol, enda brunnin á maga og baki eftir strandarferðina daginn þar áður... vörn 15 er víst ekki að duga fyrir fílabeinshvíta húðina.. Kristín er jú auðvitað alltaf með vörn 50!! Dugar ekkert minna á þessa ungu hvítu barnshúð:) Við eyddum fyrripart dags við sundlaugarbakkann á hótelinu og Kristín meiri partinn í lauginni.. hún er að verða flugsynt eftir allt svammlið í barnalauginni:) en þó alltaf með handkútana sína... Hún unir sér vel þar og er sæl og ánægð.. finnur sér alltaf eitthvað til að dunda sér við, syngur einnig mikið, fólki til skemmtunar, allavega einhverra... Er búin að eignast kunningjakonu á sama aldri frá Danaveldi, sem heitir Emily. Þó er hún enn ekki sátt við að deila dótinu sínu með öðrum enn þá, litla skinnið:) Hér eru nokkrir krakkar á öllum aldri og flest frá Norðulöndunum.. Hér á hótelinu er greinilega meirihlutinn frá Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi.. Enn erum við einu Íslendingarnir á svæðinu! Annað kemur kannski í ljós á miðvikudaginn næsta, þegar næsta flugvél frá landinu kalda lendir í Chania?! Við erum þó mjög sátt við að þurfa ekki að deila okkar furðulega tungumáli með öðrum.. enginn skilur okkur, sem betur fer kannski, þar sem oft er talað tæpulaust um klósettferðir Kristínar Snúllan hefur þó lagast með það , sökum þess, hve dugleg hún er að borða brauð og melónur á morgnana.. enginn hafragrautur og sveskjur hér til þess að hjálpa til!
Klukkan 2, þegar sólin var orðin óbærilega heit og húðin rjóð, ákváðum við að fara upp í íbúð og fá okkur snarl og horfa smá á bíó.. Kristín sofnaði þó ekki fyrr en klukkan var langt gengin í 5 og svaf til 7, þegar það átti að skella sér í mat á besta veitingastað bæjarins, á hótelinu okkar.. þvílíkur draumur að þurfa ekki að elda eða að leita sér að stað til að borða á á hverju kvöldi, því að þessi staður er besti veitningastaðurinn á allri Krítareyju! Aldrei það sama á hlaðborðinu.. nú í kvöld fengum við okkur skelfisk og S(m)okkfisk, í gær Kalkún í Appelsínusósu, og krítverskar kökur í eftirrétt.. sem betur fer eru þó alltaf vatnsmelónur fyrir Kristínu líka:) ég get þó ekki talað fyrir okkur öll, því það er mikil fjölbreytni og allir fá sér það sem þeim finnst best.. mér finnst við vera alltaf að borða allan daginn.. en ég reyni að vera dugleg í magaæfingunum líka
Í kvöld eftir matinn fórum við í kvöldgöngu eftir strandlengjunni á táslunum og reyndum að skima eftir hótelinu sem Magga, Elmar og börn voru á fyrir ári síðan.. en án árangurs enda kominn myrkur og við þurftum að snúa við.. fórum eftir götunni tilbaka.. keyptum kort og ís handa Kristínu og komum upp á hótel fyrir 10.. og hér sit ég ein á svölunum með hvítvínsglas og tikka á tölvuna.. Þórarinn og Kristín sofnuð.. reyndi þó að vekja Þ nokkrum sinnum en án árangurs.. ætli ég fari ekki bara að sofa líka...Góða nótt ***


14. júlí – DAGUR 6
(skrifað 16. Júlí að kvöldi)
ég sit hér enn og aftur á sama stað.. á veröndinni okkar og reyni að rifja upp síðastliðna 3 daga..
já dagurinn hjá okkur á mánudaginn byrjaði á því sama og venjulega.. vakna, borða og smyrja sig.. Við ákváðum þennan dag að fara á ströndina.. áttum þar yndislega stund saman.. sóluðum okkur, lékum okkur í sandinum og fórum í sjóbað.. Um 2 leitið var orðið soldið heitt og Kristín orðin þreytt og stúrin.. þannig að við fórum upp á hótel til að fá okkur eitthvað í gogginn.. í þetta skiptið á veitingastaðnum.. pöntuðum okkur pasta og omulettu.. svo var Kristín orðin södd og fékk sér lúr í kerrunni með slæður sem sólskýli.. við röltum aftur niður á strönd og láum þar á meðan Kristín svaf værum svefni í 2 tíma.. Um kvöldið áttum við von á Tinnu frænku, Villa og vinum þeirra. Það var nefnilega Zorba- og grillkvöld á hótelinu.. Eftir að hafa skolað af okkur sandinn og klætt í okkar fínasta púss fórum við niður og settumst við borð sem var búið að leggja á fyrir okkur. Tinna og hennar föruneyti komu síðan rúmlega átta og var pantað vín á mannskapinn. Eftir að hafa setið að snæðingi og kjaftað í smá tíma vorum við dregin á dansgólfið.. Kristín var reyndar búin að vera að dansa með danskri vinkonu sinni Emily sem hún hefur kynnst hér við sundlaugarbakkann. Við vorum dregin alls konar vitleysu með Zorbadönsurunum og hlóum mikið af óförum hvors annars. Íslendingarnir, við, vorum þau hressustu á svæðinu og vorum auðvitað þau síðustu sem fóru heim.. Held að það þrufi að hella meira víni í hina Skandinavana til að fá þá til að sleppa sér Eftir mikið fjör og fóru Þórarinn og Kristín í háttinn og ég rölti með ungmennunum niður að Mambo beach barnum, enda orðin forvitin á að vita hvernig væri þar umhorfs eftir að hafa setið hér nokkur kvöld og horft á fólk streyma þangað inn og út.. Ég fékk mér einn Mochito með strákunum og tjattaði við stelpurnar í smá tíma þar til klukkan var orðin það margt að ég þurfti að drífa mig í háttinn. Við vorum nefnilega búin að bóka okkur í ferð með fararstjóra með rútu og átti að sækja okkur kl 7.15! Ég kvaddi þau og óskaði þeim góðrar ferðar heim, þau áttu að fljúga aftur heim á miðvikudaginn..
Upp í rúm og góða nótt!

Engin ummæli: